<$BlogRSDUrl$>

BMX ásamt Óla Palla, Rokklandskonungi á Vagninum, Flateyri laugardaginn 1 nóv! Sannkölluð Rokkveisla!

Kafli 7 á leiðinni! - Bixter

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~Kalfli 6~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Illkvittnir kennarar hafa nú safnast saman í koníakstofunni hjá skólameistaranum, hláturinn og kvikindaskapurinn berst meðfram eyrinni. Ostarnir,vínberin og þó ekki sé minnst á púrtvínið, flæðir um í þessari gömlu stofu sem skólameistarinn hefur reynt að lappa uppá í gegnum árin með ódýrum ítölskum eftirlíkingum.Scappini borðstofuvörur og Ópið fræga eftir Edvard Munch hangir tignalega yfir kennurunum. Ástæðan fyrir þessu fína samkvæmi er sú að kennarar skólans fóru á bak við nemendur og héldu því fram að nú væri löng helgi að hefjast. Saklausu mennskælingarnir gleyptu við þessu eins og ekkert væri og héldu flestir af stað suður í menninguna. Þar sem trixið þeirra hafði heppnast svona savkalega vel ákvað skólameistarinn að slá til og bjóða til samkvæmis. Bixter fannst þetta eitthvað furðulegt og hóf því rannsókn á málinu. Eftir nokkura daga rannsókn og fjölmargar yfirheyrslur komst Bixter að því að þessi helgi er ekkert lengri en aðrar!

- Já ekki er allt sem sýnist!

Flöskudagurinn 17 okt.

Bixter byrjaði daginn á því að tegja vel úr sér í rúminu, hendurnar í veggin fyrir aftan og lappirnar spertar eins langt út og þær mögulega komust í þeirri von um að lengjast um nokkra sentimetra. Eftir suddalega leti herti Bixter sig upp og hóf lestur um jötna, dverga, ása og nornir. Eftir dágóða fræðslu um Ásatrúnna henti Bixter sér niður í Sjallann þar sem Tóti Young sat að drykkju. Er Tóti hafði samið við barstúlkuna um örfáar ölflöskur héldu þeir á leið í herbúðir BMX. Nokkrir góðir félagar höfðu slegist með í för og var rokkað þar frameftir öllu.

Laugardagurinn 18 okt.

Þar sem aðstoðarmaðurinn Alex hafði tekið sér stutt frí frá störfum um helgina, nýtti hann hina glæsilegu aðstöðu á X road 66. Bixter byrjaði daginn á því að grafa upp gamlann rafmagnsbíl ( sem eitt sinn var notaður við störf Bixters ) og reyndi að laga það sem hægt var að laga á honum. Eftir að hafa gefið Alex bílinn héldu þeir af stað ásamt Christy niður á körfuboltavöll og enduðu þau leikanna á gerfigrasvellinum. Þegar líða fór á kvöldið horfði Bixter á uppblástna stráka gretta sig og prumpa í sjónvarpinu. Eftir samtal við The Trust gekk Bixter út um hinar gleðinnar dyr.

Sunnudagurinn 19 okt.

Eftir nettan hausverk og almenna helgar ógleði reif Bixter sig á fætur ( kl 16:30 ) og dröslaðist niður í íþróttahús þar sem Dísa rokk og fleiri glæsimeyjar völtuðu yfir Tindastólsdömur. Já Dr.Dóri og Tóti Young hefðu alveg mátt æfa sig betur á trommunum þegar þeir studdu hinar glæsilegu körfuboltagellur ísafjarðar. Rock on !

Fylgist vel með næsta kafla! - Bixter

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~Kalfi 5~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Það er kalt úti á þessu dimma haustkvöld. Lítið að éta enda búinn að þræða allar helstu götur bæjarins. Hann heldur sig inní skugganum og bíður þess að sjá hana, hann hefur beðið þar frá því fyrr um kvöldið enda veit hann alveg hvar hún heldur sig.
Hann var var við hana fyrir örfáum sekúndum en ákvað að bíða aðeins lengur, hann veit alveg hvernig þær fara að þessu. Á sama augnabliki og hann deplaði augunum, rauk hún af stað og hljóp eins og fætur toguðu í átt að húsinu. Honum brá örlítið við þessi feiknalegu viðbrögð og hélt fast á eftir henni. Á milli bíla, yfir götur, þetta var allt spursmál um hver væri sneggri. Hún rétta náði að fela sig þar sem hún hafði vinninginn í kapphlaupinu mikla. Hann svo kaldur og uppgefinn var alveg búinn að fá nóg af þessum eltingaleik og ákvað að hvíla sig uppá þessari nýju ruslatunnu sem blasti við honum. Er uppá ruslatunnuna var komið, sá hann hvar gluggi einn var opinn, hann læddist inn og lét lítið fyrir sér fara, en vegna þreytu og kulda missti hann útúr sér smá mjálm. Hann hafði komið sér þægilega fyrir í gluggakistu Bixters og þar sem þetta var ekki í fyrsta skipti vissi hann vel að HANN VAR EKKI VELKOMINN!


- Já það getur farið illa fyrir köttum sem koma óumbeðnir í heimsókn til Bixters þar sem leynilegar upplýsingar eru að finna þar í hverju horni ( fyrir þá sem ekki vita þá eru vestfirsku kettirnir njósnarar pólsku frystihúsasamtakanna ). En þar sem þessi var ekki á þeirra vegum var honum sleppt eftir að síðustu 15 mínúturnar í minni hans höfðu verið þurkaðar út.

Það er kominn miðvikudagur og Bixter hefur ekkert verið að stressa sig á að dæla inn upplýsingum úr undirveröldinni. Lífið hefur gengið sinn vanagang s.s vaknað, sofið, sofið, vaknað, ásamt því að hafa þurft að takast aðeins á við ýmis verkefni tengd blökkumannasamtökunum í Bolungarvík.

Þessa daganna er Bixter að rýma til í heilbúinu og byggja þar ný geymslupláss fyrir allskyns mikilvægar upplýsingar tengdar skólanum. Mörg stór verkefni bíða Bixters og þess vegna gæti næsta kafla seinkað eitthvað lítillega.

Fylgist vel með næsta kafla! - Bixter

A.T.H. ef einhver getur frætt Bixter um hver skrifaði þetta þá væri það glæsilegt! Svar sendist á biggi@bmx.is

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~Kafli 4~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Þegar lítið er að gerast í hinu almenna samfélagi þýðir það ekki að verkefnin hjá Bixter fækki eitthvað, hell nó! Það er kominn mánudagur, ekki fyrsti né seinast mánudagurinn í október heldur annar mánudagurinn í október! Lífið við eyrina blómstrar sem aldrei fyrr og unglingarnir í Hamraborg fitna.

Það er ekki á hverjum virkum degi sem Bixter fær að njóta þess að þurfa ekki að vakna í skólan kl 8. Nei aldeilis ekki! Sigurður sögukennari er staddur í Finnlandi og blakið í íþróttunum er ekkert alveg að virka á Bixter svona snemma á mánudagsmorgun.


kl 08:00 – 11:05 Draumaveröldin

Bixter var staddur á bensínstöð, mjög líklega í menningarborginni Reykjavík. Ótrúlegt en satt þá er eins og það sé sandur útum allt, ljós sandstormur og hitinn fer stig hækkandi. Bixter er staddur fyrir utan bensínstöðina ásamt félaga sínum Hudson. Eftir að hafa keypt eitthvern varning á þessari ódýru bensínstöð verða þeir varir við frekar áberandi bíl keyra framhjá bensínstöðinni. Dökkblár gamall stationbíll brunar frammúr umferðartraffíkinni með átta talíbönum um borð. Þetta fannst Bixter og Hudson fyndið og veita þeir bílnum stutta eftirför. Stuttu eftir að þeir misstu bílin úr augnsjón, dundu sprengjurnar yfir borgina. Þeir voru staddir í Reykvískri Afganistan. Eftir mikið stríð og mikið puð færðist stríðið og reykvíska sandborgin yfir til Súðavíkur þar sem Bixter þurfti að glíma við verstfirska gallabuxnaþjófa.

kl 11:15 – 14:05 Skólinn

Bixter mætti hress að vanda í skólann á þessum ágæta mánudegi. Eftir frekar langdregin enskutíma og óvenju stuttann náttúrufræðitíma var Bixter mættur aftur heim á X road 66.

- Leynivopnið –

Já þess má til gamans geta að Bixter hefur eignast leynivopn sem mun nýtast vel til þess að safna upplýsingum um vini og vandamenn, við erum að tala um háþróaða digital Gsm myndavél sem getur mælt fjarlægð óvinarins og einnig séð til þess að Bixter gerist ósýnilegur er hætta er á ferðum. – já ekki svo slæm sú.

kl 15:15 – 17:58

Eftir að hafa tekist aðeins á við draumaveröldina aftur og stutta yfirheyrslu yfir aðstoðarmanninum Alex ætlar Bixter nú að safna fleirum upplýsingum fyrir næsta íslenskutíma.

Fylgist betur með næsta kafla. - Bixter

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~Kafli 3~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Dökk skýin streymdu inní fjörðinn, gáran á pollinum stigmagnaðist þar sem ógurlegur loftþrýstingur stefndi á bæinn. Fólk hélt sig inni og þeir fáu eftirlifandi kettir leituðu skjóls bak við ruslatunnur. Þær eru á leiðinni! já, stífmálaðar, vopnaðar alkoholsprengjum og með hálfan tank af bensíni þeyttust þær inní bæinn. Hróarskeldufararnir Addy, Hjödda og Fríða rokkuðu upp Ísafjörðinn á tveimur sólarhringum og skildu eftir sig stór spor.

Laugardagurinn 11 okt.

kl 15:15 Draumaveröldin

Afhverju þetta lag? Bixter spyr sig sömu spurninguna aftur og aftur. Hann er staddur inná dimmri búllu í Amsterdam með gítar í hönd og er að reyna að grafa upp eitthvað lag sem fær fólkið til þess að líta við sér. Ein kona situr á fremsta borði og virðist skynja óttann, óttann hans við að finna ekkert lag áður en fulli skópússarinn við barinn láti hann heyra það einu sinni enn. En afhverju þetta lag? spyr Bixter sig enn og aftur. Lagið hefur hljómað í hausnum á honum allan tíman á meðan hann flétti möppuni sinni fram og aftur. Hávaðinn á barnum fjarlægðist hratt ásamt því að fólkið hvarf á sömu sekúntu og Bixter vaknaði. Síminn á náttborðinu var í essinu sínu og spilaði lagið fram og aftur. Það tók hann smá tíma að hugsa sig um hvort hann ætti að svara eður ei. Skeitarinn hafði verið í símanum og hafði boðið Bixter að taka þátt í gleði annað kvöldið í röð þar sem gleðigellurnar þrjár væri að finna.

kl 17:50 - Humarinn

Bixter krúsaði í gegnum bæinn á Cruiser-innum ásamt Buddy Love. Eftir stutt spjall um branzann við Buddy, skellti Bixter sér í pottinn á X road 66 með einn kaldann og beið þess að gestirnir mættu í humarveisluna. Já ekki amalegt það...ha.

kl 22:00 Party-ljónin

Bixter var mættur í partyið ásamt gítarinum góða. Gleðigellurnar þrjár ásamt Buddy Love, og fleiri góðum voru gestir í Skeitarahöllinni ( Skeitarahöllin = íbúð Skeitarans ). Eftir stutt stopp í Skeitarahöllinni hélt crewið svo niður í Sjallann þar sem 6 eplasnafsskot biðu eftir þeim í boði Buddy Love. Eftir dúettinn með eidís gellunni, ölið frá Buddy og almennt góða skemmtun með gleðigellunum þremur hélt Bixter sig beint heim í bælið þar sem sængin hlýja beið eftir honum.

Fylgist vel með næsta kafla. - Bixter

~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ Kafli 2 ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~

Köld vetrarsólin reis upp yfir himinháa fjallstindanna, fuglarnir í lopapeysum og flöskurnar í ríkinu byrjuðu að klinkja af yði því ölóðir menntskælingar munu í kvöld hertaka Álftafjörðinn þar sem rokkhundarnir í Maus ætla að sprengja upp félagsheimilið í Súðavík á hinu árlega Skralli.

kl 07:35 flöskudagurinn 10 okt.

1,2,3, ding a ling, hægra augað opnaðist á undan því vinstra. Stóra klukkan á móti rúminu sem er föst í tuttugu mínútur í fjögur stellingunni var það fyrsta sem Bixter náði að greina eftir að heilabúið fór að skilja sig við draumaveröldinna. Eftir tvær jógúrt dollur, tannburstun, og lúmst kapphlaup við Christy ( yngsti fjölskyldumeðlimurinn á X road 66 ) um að ná frammsætinu var Bixter mættur aftur í Menntaskólann á Ísafirði.

Það kemur svo sem ekkert á óvart að frí var í fyrstu tveimur tímunum þar sem Sigurður sögukennari skellti sér til Finnlands. En Bixter var fljótur að taka til sinna ráða, lét hann Auði ( Indversk magadansmær frá Barðaströnd ) skutla sér heim ( X road 66 ) þar sem sængin góða beið heit eftir honum og kom honum beinustu leið í draumaveröldinna!

kl 08:23 – 09:18 Draumaveröldin

Bixter var nú staddur í Ítölsku ölpunum að greiða geitum, já greiða geitum! Það var bjartur dagur og íölsku geiturnar jörmuðu í kór með ítölskum hreim. Eftir að hafa greitt um það bil 8 geitum birtist þar stór hrútur sem var ekki svo sáttur við þetta einkennilega athæfi. Hann hefur eflaust litið á þetta sem einskonar samkeppni á mili sín og Bixters og tók því á rás og ætlaði að hrekja Bixter í burtu! Á flótta undan óða ítalska hrútnum hljóp Bixter eins og fætur toguðu. Áður en hann vissi var hann staddur í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði þar sem Hjalli félagi hans úr Mát var þar staddur ásamt einkennilegu liði að spila lagið “Black balloon” með hljómsveit sem kallar sig “ Goo goo dolls”. En það sem vakti mestu athygli Bixters var að það var ung kona að spila með Hjalla á eitthvað furðulegt hljóðfæri, þetta var einskonar fiðla sem hljómaði eins og fiðla og selló í einu, mjög töff.

kl 09:20

Bixter vaknaði upp eftir að bílflauta glumdi inní herbergi hans, þar á ferð voru glæsigellurnar Svandís og Auður komnar til þess að sækja Bixter. Ferðinni var heitið aftur í Menntaskólann á Ísafirði.

kl 12:10 - Þýskutíminn

Bixter kominn aftur heim eftir ótrúlega þýskan þýskutíma, já hann var svo þýskur að 10 –15 mínútum eftir tímann glumdi í hinum vel pakkaða haus Bixters ...Auf Wiedersehen...Auf Wiedersehen..... arg...ekki gott!

kl 13:20 - Rauða þruman

Loks kom að því að Bixter þurfti að sinna Rauðu þrumunni (Daihatsu Charade “ 91 ), en Rauðu þrumunni hafði verið lagt síðustu mánuði fyrir utan X road 66 í varúðarskyni. Þar sem þruman hafði þann einstaka hæfileika að geta falið sig fyrir óvinum ( löggunni ) komst hún undan því að verða fyrir því áfalli að missa númerin ( fékk endurskoðun í apríl sl. + ennþá á nagladekkjunum ). En Bixter bjargaði Rauðu þrumunni með því að taka númerinn sjálfur af henni og fela hana á planinu hjá H-prent ( þar sem enginn mun finna hana því nú er hún númeralaus.....eða hvað? )

Já kæru lesendur, það er ekki á hverjum degi sem þið fáið að njóta þess háttar sögum af undirheimum og glæpum eins og Bixter hefur nú uppá að bjóða! Því hvet ég ykkur til þess að fylgjast vel með næsta kafla.
- Bixter

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~KAFLI 1. ~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

kl 07:29

Þetta hófst allt einn kaldann fimmtudagsmorgun er Bixter var vakinn upp um kl 07:30.

Eftir eina jógúrt dollu, tannburstun og heiðarlega tilraun til þess að skilja sig við draumaheiminn henti hann sér út í bíl um kl 07:57.

Fyrsti stoppustaður hjá leið 66 ( ökumaður: Mamma ) var fyrir ofan Menntaskólann á Ísafirði ( þar sem Bixter stundar nú nám við ) Er Bixter mætti fyrir utan stofu 6 ( er mig minnir ) var honum tilkynnt að það væri engin stærðfræðitími og sá hann þá sér fært um að koma sér heim í flýti til þess að ná sænginni meðan hún væri ennþá heit.

kl 08:30 - 12:02

Já! Það var mikið um að vera í draumaveröld Bixters í morgun. Bixter tók á ýmsum vandamálum sem snerta hina frægu undirheima Vestfjarða! til gamans má geta að Bixter þurfti að glíma við blökkumannasamtökin í Bolungarvík ásamt því að sannfæra tælenskar mæður um að Þingeyri væri paradís.

kl 12:40 – Enskutíminn

Það leið ekki á löngu er Bixter var mættur í enskutíma eftir hasarinn í draumaveröldinni. Hann kom sér þægilega fyrir og horfði á kvikmyndina “ Sting” ( Paul Newman / Robert Redford ) , ekki svo slæm sú.

kl 14:05

Eftir að hafa horft á “popparann” og “rauðmann” varð Bixter var við mikinn mannfjölda í andyri skólanns, þar hafði safnast saman stór hópur nemenda til þess að fylgjast með pappakassa sem lögreglan á Ísafirði var að fjarlæga. Bixter gerði sér lítið fyrir og kíkti í kassann ásamt lögregluþjóninum, í kassanum var hauslaus dauður köttur sem einhver glæpamaður ( væntanlega meðlimur í Verstfirsku Mafíunni ) hafði skilið eftir sem leynivinagjöf, en í skólanum ríkir nú hinn árlegi Leynivinaleikur og kemur kannski engum á óvart að þemi dagsins var Hrekkjadagur.

Kl 14:30

Eftir að hafa sótt sinn ástkæra aðstoðarmann Alex á leikskólann var
Bixter mættur á hárgreiðslustofu Siggu Þrastar ásamt aðstoðarmanni sínum, þar sem grunur hans lá um að þar væri að finna klippikonur skelti hann Alex í stólinn og óskaði eftir því að þær myndu gjörbreyta útliti hans þar sem það er aldrei að vita hverjir gætu verið á eftir okkur. Alex valdi sér “hanakamb” og var það alveg þraul út hugsað hjá honum þar sem hanakambar falla svo vel inní hinn almenna bæjarbúa.
Eftir breytinguna hjá Alex héldu þeir beinustu leið heim og eru þar enn.

Fylgist vel með næsta kafla. - Bixter
Já já og aftur já!

Já þetta mun vera jákvæðasta blogg á landinu þar sem ekkert blogg hefur haft jafn jákvæðan titil síðan Jábert hinn miklu frá Ölfusá var og hét.

En hvað um það, þá mun hér rísa alþjóðleg fréttamiðlun af undirheimum *Bixters*

Þannig að fylgist vel með því eftir skamma stund mun 1. kafli hefjast!
.....Tsss.... það er ekkert annað!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?